Til fyrirmyndar
TAKK FYRIR AÐ VERA TIL FYRIRMYNDAR er hvatningarátak tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni. Fólk er meðal annars hvatt til að senda póstkort og þakka þeim sem það lítur upp til.
Ég er mjög hrifin af þessu átaki og hef verið hugsi um allt það fólk sem hefur veitt mér innblástur í gegnum tíðina. Ég dáist að hæfileikaríku fólki í tónlist og sköpun, menningu og listum. Ég heillast að fólki sem fylgir hjartanu sínu og berst fyrir því sem það trúir á og leggur sitt að mörkum í þágu mannréttinda, umhverfismála, uppeldismála og svona mætti lengi telja. Ég dáist líka að þeim sem hafa glímt við mótlæti, erfiðleika, missi, fíknir og náð að komast upp, leitað hjálpar og hjálpað svo öðrum. Ég dáist að ótal eiginleikum í fari fólks eins og umburðarlyndi, einlægni og auðmýkt. Ég er svo lánsöm að hafa kynnst mörgum sem búa yfir þessum fallegu eiginleikum.
Stærstu fyrirmyndirnar mínar eru samt fólkið sem stendur mér næst, ástvinir mínir. Speglarnir og stundum boxpúðarnir mínir, þeir sem ég hef deilt öllu í lífinu með. Sigrum, sorgum og allri flórunni. Þetta líf er svo fallegt og á köflum flókið og erfitt. En við höfum verið saman í því.
Mig langar að taka úr þessu átaki að við getum öll verið fyrirmyndir. Fyrst og fremst okkar eigin fyrirmyndir. Með því að hugsa vel um okkur sjálf, hugsum við vel um nærumhverfið okkar. Þegar okkur líður vel, gefum við okkur sjálfum tækifæri til að lifa fallega og okkar nánustu líka. Sársauki og ofbeldi er sprottið úr sjálfshatri og vanlíðan, sorg og áföllum. Þegar við hugsum vel og af kærleika um okkur sjálf, þá sjáum við fegurðina í okkur og öðrum og getum verið nærandi og uppbyggileg við þá sem standa okkur næst. Eins og vinkona mín sagði í einum yndislegum hlaðvarpsþætti ,,Virðing í uppeldi” (sem ég mæli með!). Þegar við bendum á aðra, kennum þeim um, reynum að breyta þeim, stjórna, skamma, þá snýr einn putti að þeim, en þrír að okkur sjálfum. Afhverju er eitthvað að stuða okkur svona mikið í fari annarra? Afhverju er ég stjórna, hafa vit fyrir og jafnvel skaða og meiða þessa manneskju? Hvað segir það um mig og þann stað sem ég er á?
Eina leiðin er að taka ábyrgð á okkur sjálfum og vera fús og stundum óska eftir hjálp. Við þurfum að nálgast þetta líf af mýkt og kærleika í eigin garð.
Ef við prófum að hugsa um okkur eins og lítil börn. Hvað gerum við þegar barn grætur og upplifir erfiðar tilfinningar og sársauka? Við huggum það og nálgumst það af mýkt. Barn róast ekki ef það er skammað og því refsað fyrir að gráta eða meiða sig. Við þurfum að gera þetta sama við okkur sjálf. Hvernig sem við gerum það. Við þurfum stundum að prófa okkur áfram og finna það sem nærir okkur. Lesa bækur, jóga, prjóna, vera með dýrum, klifra á fjöll, dansa, leika, hvað sem er. Þegar við gerum það þá getum við vaxið og dafnað og leyft öðrum að gera það sama.
Takk elsku mamma, pabbi, systkini, börn og ástvinir.
Ég deildi mynd af vinkonu minni á facebook með eftirfarandi texta:
Ein glæsilegasta vinkona mín Sheba prýddi forsíðu Grapevine í skautbúningi fyrir nokkrum árum. Myndin olli vægast sagt fjaðrafoki og það ýfði upp það ljóta í óöruggum Íslendingum, og ég man hvað það var ótrúlega sorglegt að sjá hvað hún þurfti að þola útaf þessari mynd og bara sem kona af erlendum uppruna á Íslandi.
En fyrir mér var, er og verður (og fyrir miklu fleiri landssálir) hún táknmynd bjartsýni, vonar, hugrekkis, framtíðar, fjölmenningar og fegurðar. Það er svo leiftrandi lífsgleði og kvenorka í þessari mynd!
Takk Sheba, þú ert brautryðjandi hvort þér líkar betur eða verr! Munum að þakka öllum þeim sem eru fyrirmyndir! Tölum saman, stöndum upp þegar við verðum vitni að niðurlægingu eða ofbeldi. Upplýsum börnin okkar, lærum sjálf, tölum saman! Drögum fram það besta í okkur sjálfum og þökkum þeim sem hafa veitt okkur innblástur. Við eigum ekki að vera feimin og það skiptir miklu máli. Við getum öll verið til fyrirmyndar. Ég ætla að byrja á að þakka henni! Takk bellissima!
Bon nuit.
Þið getið séð póstinn og myndina hér:
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10157179319667751&set=a.10151272606442751&type=3¬if_id=1592380530666013¬if_t=feedback_reaction_generic&ref=notif