Hvíldarhelgi í Hveragerði
Upphafið að einhverju stærra
Ég er enn að ná utan um allt sem gerðist síðustu helgi. Hjartað mitt er fullt, líkaminn rólegur – og ég er að springa úr þakklæti, auðmýkt og von. Fyrsta pilot-hvíldarhelgin sem ég hélt í Heilsustofnun í Hveragerði fór fram dagana 29.–31. ágúst og það er ekki ofmælt að segja að hún hafi farið langt fram úr mínum allra bestu væntingum.
Þessi helgi markaði upphafið að verkefni sem ég hef lengi borið með mér í hjartanu – að bjóða upp á rými fyrir fólk sem er í bataferli frá átröskun, eða vill styrkja sig í átt að betri tengingu við líkama, huga og hjarta. Rými þar sem náttúran, listin, hugleiðsla, jóga og jafningjastuðningurinn fléttast saman við ró og ramma – í þeim tilgangi að styðja við raunverulegan og sjálfbæran bata.
🌿 Hugmynd sem varð að veruleika
Þessi helgi var ekki læknisfræðileg meðferð, heldur viðbót – öruggt, nærandi og skapandi rými fyrir þau sem eru að vinna í eigin bata. Þetta var tilraunaverkefni, en strax frá fyrsta degi var ljóst að eitthvað djúpt og raunverulegt var að eiga sér stað. Við hlógum, hvíldum, tjáðum okkur, fórum út í náttúruna, fundum flæðið í jógarýminu, fórum í slökun, smá silent disco og hugleiðslu. Ég var með skýran ramma og prógram og í flæðinu náðum við ekki að gera allt en það var alveg eins og það átti að vera.
Það myndaðist traust og tenging sem erfitt er að lýsa í orðum.
💬 Orð sem snertu mig
Ein þátttakenda sagði eftir helgina:
„Upplifunin mín frá jóga / batahelginni er mér mjög dýrmæt. Helgin reyndist mér virkilega vel og fékk mig til að hugsa dýpra um mikilvægi slökunar. Það var svo fallegt og hvetjandi að vera í kringum þessar sterku konur sem skilja og hafa upplifað þetta ferðalag. Út frá því myndaðist svo mikið traust og kærleikur.“
„Elín, leiðbeinandi, er gangandi sólargeisli og smitar frá sér nærandi og hvetjandi orku – sönn fyrirmynd. Ég lærði að taka eftir litlu atriðunum í kringum mig sem veita gleði og rækta skynfærin – tengja það við núvitund.“
Orð geta ekki lýst hversu nærandi og dásamlegt umhverfið var. Náttúran í kringum Hveragerði hafði svo góð áhrif á kerfið mitt – ég fann strax fyrir ró og slökun innra með mér.“
🍽️ „Alltof góður matur! Góður og nærandi matur sem þjálfar upp traust við sambandið við mat.“
📅 „Skipulagið var í flæði – og það passaði svo vel við tilgang helgarinnar.“
💛 Þakklæti
Ég gæti ekki verið þakklátari fyrir það hvernig þetta gekk. Þakklát fyrir þátttakendurna sem treystu mér og mættu með opið hjarta. Þakklát fyrir Heilsustofnun í Hveragerði – fyrir örugga og friðsæla umgjörð og ómetanlegt samstarf. Ég átti fund með yfirlækni stofnunarinnar, næringarráðgjafa og fleirum – og samstarfið við Inga, markaðsstjóra, var svo uppbyggilegt og hlýtt. Ég fékk að halda þetta í fallegu rými sem ég gerði að mínu og styður bata – vorum í fallegum herbergjum, hollum mat, náttúru og ró. Batamiðað umhverfi sem róar taugakerfið, lykilatriði.
Og svo fékk ég ómetanlegan stuðning frá:
✨ @reyr.studio / Elma – fyrir mjúk og hlý teppi, dýnur og kodda
✨ @jogasetrid / Auður – fyrir dásamlega augnpúða
✨ @berg.skart / Bergrúnu – fyrir falleg hálsmen
✨ @hreysti / Billa – fyrir jógakubbana
✨ Gunnsí – fyrir gleðina með silent disco
pabba fyrir hvatninguna alltaf og öllum hinum sem buðu fram aðstoð, kraft og nærveru. Takk.
✨ Það sem ég tek með mér
Það sem ég tek með mér eftir þessa helgi er djúp og raunsæ lífsgleði.
Ég er óendanlega heppin að hafa þá reynslu að hafa sjálf glímt við átröskun. Það er þessi reynsla sem gerir mig að þeirri manneskju sem getur staðið í þessu verkefni – með skilning, samkennd og raunsæi. Það er ekki eitthvað sem skilgreinir mig, en það hefur mótað mig og kennt mér svo margt.
Ég er líka svo ótrúlega heppin að fá að vinna með hæfileikaríkustu, einlægustu og hlýjustu manneskjum sem ég þekki. Að sjá glampann í augum þeirra þegar við tölum um draumana og tengjumst innsæinu, og gleymum okkur í náttúrunni. Ég er svo stolt og snortin af þeim, sem hafa gengið í gegnum sitt eigið helvíti – en mæta samt í gleði, með opið hjarta og löngun til að gefa – það snertir mig á ólýsanlegan hátt. Það gefur mér von. Og trú. Og eldmóð.
Það eru forréttindi að fá að halda utan um verkefni sem er fallegt og þarft. Ég finn svo sterkt að þetta skiptir máli – og að þetta er verkefni sem á rétt á sér.
Ég veit í hjartanu að ég mun ekki eiga í neinum vandræðum með að finna samstarfsaðila – því fólk finnur hvað þetta er hreint og mikilvægt.
Þetta er algjört ævintýri – Ég er svo þakklát að það sé komið á skrið 💛
🔜 Hvert nú?
Ég er strax byrjuð að vinna að næstu hvíldarhelgi og hef lært ótal margt þessa helgi. Draumurinn um að skapa miðstöð (Iceland Wellness Center) sem styður heildrænt við einstaklinga, á fyrri stigum veikinda og veitir eftirfylgni, er komin af stað. Draumur sem áður var bara hugmynd, er nú orðin smá reynsla – sem getur vaxið og dafnað.
Þetta var bara fyrsta skrefið – en það var stórt.
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í framtíðarhelgi, eða vilt fá að vita meira – sendu mér skilaboð 💌 Ég er með hjartað opið og til í samtal.
Takk fyrir að lesa.
Takk fyrir að vera hluti af þessu.
Með kærleika og þakklæti,
Elín
🌼