Um mig
Ég heiti Elín Vigdís Guðmundsdóttir, en ég er oft kölluð Lína. Á uppvaxtarárunum bjó ég með fjölskyldu minni í mörgum mismunandi löndum vegna starfa föður míns. Þó við værum alltaf með einn fót á Íslandi, bjó ég einnig í Sviss og fór í skóla í Bandaríkjunum, Kosta Ríka og Indlandi, auk styttri dvalar í öðrum löndum.
Ég er lögfræðingur og mannfræðingur að mennt, með sérhæfingu í mannréttindum. Ég starfaði í áraraðir við hlutastarf á Mannréttindaskrifstofu Íslands, fór í starfsnám við Friðarháskóla Sameinuðu þjóðanna í San José, Kosta Ríka, nam við Jawaharlal Nehru háskólann í Nýju Delí, Indlandi, og hef síðustu ár unnið á sviði flóttamannaréttar, stjórnsýsluréttar og mannréttinda hjá kærunefnd útlendingamála.
Áhugi minn liggur í því að bæta hag þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Ég hef meðal annars beint sjónum að málefnum ungmenna og viðkvæmra hópa. Í laganáminu var ég sérstaklega áhugasöm um hagsmuni og réttindi barna, og í jógakennslu minni hef ég alltaf haft velferð og þroska barna í fyrirrúmi.
Ég hef stundað jóga í mörg ár og kynntist núvitundarhugleiðslu fyrst í Kanada árið 2005. Ég er jógakennari og hugleiðslukennari í frítímanum mínum og hef klárað jógakennaranám, þar á meðal krakkajógakennaranám hjá Little Flower Yoga, og mörg hugleiðslunámskeið, þar á meðal hugleiðslukennaranám hjá Art of Living. Ég lauk einnig jógakennaranámi í Kundalini jóga árið 2020 og er nú formaður Félags Kundalini jógakennara á Íslandi (KYTAIS). Ég hef síðan 2019 kennt vikulega hugleiðslu á endurhæfingargeðdeild Landspítalans.
Ég kenni einnig reglulega konum í fangelsinu á Hólmsheiði.
Ég er stofnmeðlimur og formaður samtakanna SÁTT, sem vinna að því að bæta skilning og þekkingu á átröskunum og tengdum röskunum. Samtökin vinna að því að auka forvarnir og tryggja að einstaklingar með átröskun fái þá heilbrigðisþjónustu, meðferðarúrræði og félagslega aðstoð sem þeir þurfa. Við skipuleggjum viðburði, vekjum athygli í fjölmiðlum og tökum þátt í samtölum við opinbera aðila og einkaaðila um málaflokkinn. Nánari upplýsingar um samtökin má finna á vefsíðu þeirra, www.atroskun.is, eða á Facebook-síðu þeirra: www.facebook.com/atroskun/
Leiklist hefur einnig verið stór hluti af lífi mínu, og ég hef tekið þátt í óperum, leikritum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum. Ég elska að sameina leiklist og jóga, sérstaklega með börnum.
