Hugleiðsla fyrir börn
Börnin okkar finna fyrir áreiti og álagi eins og við fullorðna fólkið. Þau þurfa líka að fá pásu til að slaka á og beina athyglinni inn á við.
Aðalástæðan fyrir því að ég fór að kynna mér og læra krakkajóga og krakkahugleiðslu er til að hjálpa dóttur okkar að þjálfa einbeitingu og róa hugann. Ég hef sjálf fundið hvað hugleiðsla hefur hjálpað mér mikið og fór að kynna mér betur það sem hentar fyrir börn. Það hefur hjálpað dóttur okkar mjög mikið og ég veit um marga sem hafa áhuga á að kenna börnunum sínum hugleiðslu. Þess vegna ætla ég að deila því sem okkur hefur fundist sniðugt hér. Oft er hægt að tvinna saman hugleiðslu og leikjum, leiklist, spuna, söng og dansi. Þá er þetta eiginlega hugleiðsla í dulargervi ! Við erum líka svo heppin að hugleiðsla og jóga er kennd í leikskólanum hjá syni okkar og grunnskóla dóttur okkar, sem er ómetanlegt að okkar mati.
Kostir hugleiðslu
Hugleiðsla getur hjálpað okkur og börnum líka að takast á við álag, þjálfa einbeitingu og bæta líðan. Hugleiðsla róar taugakerfið og minnkar stresshormón sem hefur margvísleg jákvæð áhrif á líkamann s.s. meltingu og ónæmiskerfið. Auk þess hefur það jákvæð áhrif á sjálfstraustið okkar að geta sótt í okkar eigin innri styrk, alveg óháð utanaðkomandi aðstæðum. Þannig getur það að kenna krökkum að staldra við og draga athyglina að andardrættinum verið ómetanleg gjöf.
Fjöldi rannsókna hafa sýnt að meðal jákvæðra áhrifa sem hugleiðsla hefur fyrir börn almennt eru betri líðan, einbeiting og hegðun en rannsóknir hafa jafnframst sýnt jákvæð áhrif hugleiðslu fyrir börn sem glíma við ofvirkni og athyglisbrest (ADHD), kvíða, þunglyndi, svefnvandamál, hegðunarvanda og átraskanir.
Að vera fyrirmynd
Þegar kemur að hugleiðslu fyrir krakka, þá gildir það, eins og með aðra hluti, að öflugasta sem við gerum er að vera góðar fyrirmyndir. Ef þau sjá okkur hugleiða og að við tileinkum okkur það eins og aðrar heilbrigðar venjur eru þau líklegri til að sýna því áhuga.
Ólíkar aðferðir
Það er til fjöldinn allur af hugleiðsluaðferðum til að bæta heilsu og vellíðan. Algengar hugleiðsluaðferðir eru hugleiðslur með einbeitingu (e. focus meditation), núvitundarhugleiðsla, leiddar hugleiðslur, hugleiðsla með hreyfingu, möntrum o.s.frv.
Ein hugleiðsluaðferð er að beina athyglinni að einum hlut, s.s. andardrættinum. Þá sitjum við í þægilegri stöðu, með beint bak og lokuð augu (eða opin ef okkur finnst það þægilegra) og beinum athyglinni að andardrættinum. Þegar hugurinn reikar þá drögum við athyglina mjúklega aftur að andardrættinum. Þessi æfing er einföld og þægileg og hentar byrjendum ágætlega. Fyrir krakka sem eru að byrja getur verið erfitt að sitja kyrr, jafnvel í nokkrar mínútur og þá hentar oft betur að gera hugleiðslu með hreyfingu, eins og t.d. jóga.
Nokkrar ráðleggingar
Nokkrar ráðleggingar ef þið viljið kenna börnum að hugleiða. Það er fínt að vera bara nokkrar mínútur á dag fyrir börn á leikskóla- og grunnskólaaldri. Fyrir marga hentar að gera hugleiðslu á föstum tíma, t.d. sem hluta af daglegum venjum, s.s. í háttatímanum. Þá getur líka verið gott að róa hugann fyrir svefninn.
Svo er hægt að kenna þeim að taka nokkra djúpa andardrætti þegar erfið spurning í prófi kemur eða fyrir keppni í íþróttum eða annað þar sem þau finna fyrir stressi. Þegar börn upplifa erfiðar tilfinningar, getur verið gagnlegt að kenna þeim að nota djúpa öndun til að ,,kjarna sig”.
Það eru margar leiðir til að hugleiða með börnum og maður þarf að finna bara það sem hentar manni og barninu manns best. Við og allir sem við erum í samskiptum við njóta góðs af því.
HUGLEIÐSLUÆFINGIN 5-4-3-2-1
Mig langar að deila með ykkur einfaldri hugleiðsluæfingu sem ég fann um daginn. Ég prófaði að gera hana í morgun með börnunum til að eiga stutta notalega stund saman áður en allir fara í vinnuna eða skólann.
Við komum okkur þægilega fyrir, öndun djúpt nokkrum sinnum og teljum upp (upphátt eða í huganum):
5 hluti sem við sjáum
4 hluti sem við skynjum
3 hljóð sem við heyrum
2 ilmi sem við finnum
1 bragð sem við finnum
Við prófuðum að nota söngskál til að byrja og enda æfinguna en annars er líka hægt að anda bara nokkrum sinnum djúpt niður í maga.
Kærleikskveðja.